64. ársþing ÍBA
Haldið með rafrænum hætti þann 29. apríl 2021, klukkan 17:30
1. Þingsetning: Geir Kristinn Aðalsteinsson formaður ÍBA setur þingið og biður viðstaddann heiðursfélaga Hermann Sigtryggsson velkominn sem og aðra þingfulltrúa.
Geir Kristinn greindi frá því að vegna óvenjulegra aðstæðna hefði þingið frestast um 1 ár og væri nú haldið með rafrænum hætti. Það hefði áhrif á þingstörfin sem yrðu með breyttu sniði. Þannig yrðu tillögur lagðar fram án þess að þær fari sérstaklega til umræðu í nefndum. Þá greindi hann frá því að ársþing yrði haldið vorið 2022. Geir lagði fram þá tillögu að ekki yrðu gerðar breytingar á fulltrúum í laganefnd sem myndi starfa óbreytt fyrir ársþingið 2022. Því næst var gengið til dagskrár.
Því næst minntist Geir Kristinn þeirra félaga sem látist hafa frá síðasta ársþingi.
Látnir KA félagar: Haraldur Sigurðsson, Viðar Garðarsson, Ísak Guðmann, Axel Kvaran, Matthías Eiðsson og Birgir Steingrímur Hermannsson.
Látnir Þórs félagar: Sigurður Lárusson, Edvard van Linden, Ágúst Herbert Guðmundsson, Hilmar Gíslason og Baldvin Rúnarsson.
Látnir félagar Sundfélagið Óðinn: Vilhjálmur Ingimarsson.
Geir Kristinn lagði til að stjórn þingsins yrði í höndum formanns í ljósi aðstæðna og þingritari Ingvar Már Gíslason, engar athugasemdir bárust. Þá kannaði Geir Kristinn lögmæti þingsins, engar athugasemdir bárust.
2. Skýrsla stjórnar
Formaður ÍBA flutti skyrslu stjórnar fyrir starfsárin 2018 og 2019.
Vegna frestunar þingsins er nokkuð um liðið og í því samhengi benti Geir á að stjórnarskýrslur er að finna í ársskýrslum ÍBA á heimasíðu bandalagsins.
Stjórn ÍBA hafa skipað síðastliðin ár auk Geirs, Hrafnhildur Guðjónsdóttir, Ármann Ketilsson, Inga Stella Pétursdóttir, Erlingur Kristjánsson. Varamenn Hörður Sigurharðarson og Ómar Kristinsson.
2018: Skrifstofa ÍBA flutti úr Glerárgötu í íþróttahöllina. Framkvæmdastjóri var ráðinn til starfa, Helgi Rúnar Bragason. Íþróttastefna ÍBA og Akureyrarbæjar var samþykkt í mars. Nokkur fjöldi af íþróttamótum aðildarfélaga, fyrirlestrar og ráðstefnur á vegum ÍBA sem og hátíðin Íþróttamaður Akureyrar. ÍBA hélt 12 stjórnarfundi og 2 formannafundi.
2019: Ný heimasíða ÍBA. Þátttaka ÍBA á Íþróttaþingi ÍSÍ og 21 keppandi á vegum ÍBA og Akureyrarbæjar á International Children‘s Winter Games. Fræðslumál, fyrirlestrar og námskeið haldin á vegum ÍBA. Rekstrarsamningar við KA, Þór, Létti, SA og GA sem og þjónustusamningar við sömu félög og Fimak. ÍBA hlaut inngögnu í UMFÍ sem og gæðaviðurkenningu Fyrirmyndarhérað ÍSÍ. 75 ára afmæli ÍBA og íþróttafólk Akureyrar kjörið. Haldnir voru 10 stjórnarfundir og 2 formannafundir á árinu.
Fram kom hjá Geir að umfang ÍBA hefði verið að aukast og verkefnum fjölgað. Samstarf hefði verið gott við Frístundaráð og starfsmenn Akureyrarbæjar og aukist til muna. Nokkur erfið mál hafa koið upp sem snúa að einelti og kynferðislegri áreitni. Þá greindi Geir frá því að aukinn þungi væri í sameiningarmálum íþróttafélaga á Akureyri sem er í samræmi við íþróttastefnu Akureyrar.
3. Ávarp gesta
Bæjarstýra Ásthildur Sturludóttir ávarpaði þingið og sagði m.a. Ásthildur hrósaði og þakkaði aðildarfélögum fyrir hvernig tekist hefur verið á við samfélagsleg áhrif Covid-19. Kraftmikið starf íþróttahreyfingarinnar og ráðdeilt í rekstri íþróttafélaga mikilvægt til að hægt sé að byggja upp aðstöðu félaganna. Hún hvatti til þess að íþróttafélög á Akureyri skoði sinn rekstur gaumgæfilega með það í huga hvernig ná megi fram hagræðingu í rekstri.
Þá fór Ásthildur yfir mikilvægi íþróttastarfs fyrir ungt fólk, þroska þeirra og menningu.
Eva Hrund Einarsdóttir formaður frístundaráðs ávarpaði þingið og sagði m.a.
Eva hrósaði hreyfingunni fyrir það hvernig tekist hefur verið á við gjörbreyttar aðstæður í samfélaginu. Frístundaráð hefur lagt áherslu á að fylgjast vel með brottfalli iðkenda og ánægjulegt að sjá að iðkendum hafi lítið sem ekkert fækkað.
Umsóknarfrestur vegna sérstaks íþrótta og tómstundastyrks fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum hefur verið framlengdur.
Eva ræddi um að uppbyggingarskýrsla um nýframkvæmdir íþróttamannvirkja hefði verið samþykkt og unnið eftir henni á þessu kjörtímabili. Tvö verkefni væru farin af stað. Eva sagði frá þungum rekstri bæjarsjóðs sem hefði áhrif á íþróttahreyfinguna og í því samhengi yrði öllum steinum velt við. Hún þakkaði hreyfingunni fyrir skilning á þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til.
Fram kom hjá Evu að frístundaráð hefði skipað starfshóp til að fylgja sameiningu íþróttafélaga í samræmi við íþróttastefnu Akureyrarbæjar. Starfshópurinn telur að efla megi faglegt starf félaga með samvinnu og sameiningum íþróttagreina.
Því næst ræddi Eva um Íþróttatengda ferðamennska og greindi frá því að stefnt væri að kynna stöðu þeirra mála á næsta formannafundi ÍBA. Eva sagði frá því að unnið sé að lausn á gistumálum í skólum vegna eldvarnareftirlits og öryggismála.
Þá kom fram hjá Evu að frístundastrætó fer í gang næsta haust. Fjármagnað af Akureyrarbæ og með greiðsluþátttöku foreldra. Að lokum vakti Eva athygli á átakinu „hefjum störf“ þar sem íþróttafélög geta farið í átaksverkefni og fengið styrk uppí launakostnað.
Haukur Valtýsson formaður UMFÍ ávarpaði þingið og sagði m.a.
Stefnumótun UMFÍ stendur yfir og taka fulltrúar ÍBA þátt í þeirri vinnu. Stefnt er að því að ný stefna verði lögð fyrir á sambandsþingi í október. Hann fagnaði því að ÍBA taki þátt í þeirri vinnu.
Haukur nefndi að yfir 7 milljarðar fari úr landi í gegnum erlendar veðmálasíður og er íþróttahreyfingin ekki að njóta neinna tekna af þeirri upphæð og sé það verulegt áhyggjuefni. Tækifæri til að horfa til framtíðar og þróa hreyfinguna.
Haukur nefndi að bakland félaganna væri mikilvægt og hvatti félögin til að hlúa að sínu baklandi og sjálboðaliðum. Óskar ÍBA velfarnaðar í sínum mikilvægu störfum.
Ingi Þór Ágústsson framkvæmdastjórn ÍSÍ ávarpaði þingið og sagði m.a.
ÍSÍ vann mikla vinnu til að tryggja rekstrargrundvöll íþróttahreyfingarinnar, líklega 1,5 milljarður sem hafa komið í gegnum stuðning ríkisins. Þar af 50 milljónir til aðildarfélaga ÍBA. Brottfallstölur benda til þess að iðkendum sé að fjölga, sérstaklega í yngstu hópunum.
Að loknum ávörpum fékk kjörbréfanefnd orðið
Kjörbréfanefnd: Ingvar Gíslason greindi frá því 21 aðildarfélag á rétt til að senda samtals 101 fulltrúa til þingsins. Á þingið voru skráðir 41 fulltrúi samkvæmt kjörbréfum. Ekki eru gerð athugasemdir við kjörbréfin. 63,4% karlar og 36,6% konur eru skráð til þingsins.
Kjörbréfnefnd vakti þó athygli á því að svo virtist vera að ekki væru allir þingfulltrúar mættir til fundarins með rafrænum hætti. Var því næst gerð könnun á mætingu. Var 31 fulltrúi mættur.
4. Ársreikningur ÍBA
Framkvæmdastjóri fór yfir ársreikninga ÍBA 2018-2020. Tap var á rekstri 2018, 598.733. Hagnaður var af rekstri 2019, 1.360.236. Hagnaður árið 2020 var, 1.702.045. Efnahagur ÍBA er traustur og eru ársreikningar áritaðir af skoðunamönnum án athugasemda. Framkvæmdastjóri greindi frá helstu tölum rekstrarins. Að öðru leiti er vísað til ársreikninga ÍBA á heimasíðu þess.
5. Umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga.
Þingforseti tók því næst fyrir umræður um skýrslu stjórnar og ársreikninga.
Aðeins barst fyrirspurn um hvað LÍ söguritun undir veltufjármunum væri. Fram kom að þetta væru fjárreiður sem ætlaðar væru til að skrifa íþróttasögu Akureyrarbæjar.
Því næst var skýrsla stjórnar og ársreikningar bornir upp til samþykktar
Þingið samþykkti samhljóða með 31 atkvæði.
6. Fjárhagsáætlun ÍBA
Framkvæmdastjóri ÍBA kynnti fjárhagsáætlun ársins 2021. Áætlaður hagnaður er 1.700.000. Fram kom að afrekssjóður lækkar um rúmar 1,6 milljónir sem nemur eftirstöðvum afrekssjóðs frá 2020.
Ein fyrirspurn barst sem sneri að því að Lottó styrkur er að lækka. Helgi var til svara og sagði að 2020 hafi komið til auakúthlutunar að virði 3,3m sem ekki er gert ráð fyrir að verði á þessu ári.
Fjárhagsáætlun borin upp til samþykktar og var hún samþykkt samhljóða.
7. Ræddar tillögur og mál sem fyrir liggja.
Þingið samþykkti tillöguna sem snerist um að færa Akureyrarbæ, styrktaraðilum og ríkisstjórn þakkir fyrir veittan stuðning á erfiðum tímum, sjá tillögu hér:
Þakkartillaga ÍBA
8. Kosningar
Uppstillinganefnd skipuðu Bjarni Þórhallsson GA, Helga Lyngdal Þorsteinsdóttir Þór og Ólöf Sigurðardóttir SA.
Helga Lyngdal greindi frá tillögu uppstillinganefndar. Gerð er tillaga um að formaður ÍBA verði Geir Kristinn Aðalsteinsson. Aðrir í stjórn eru Ármann Ketilsson, Birna Baldursdóttir, Erlingur Kristjánsson og Inga Stella Pétursdóttir. Varamenneru Jón Steindór Árnason og Ómar Kristinsson. Skoðunarmenn eru tilnefndir þeir Guðmundur B. Guðmundsson og Sveinn Pálsson. Nokkrar umræður urðu um kynjahlutföll og m.a. velt því upp hvort kynjahlutföll þyrftu að vera jafnari m.t.t. Fyrirmyndarhéraðs viðurkenninguna. Niðurstaðan var sú að hlutfall aðalmanna væri það sem skipti máli.
Kosning formanns ÍBA. Þingið samþykkti tillögu uppstillingarnefndar.
Kosnir 4 stjórnarmenn og 2 til vara. Þingið samþykkti tillögu uppstillingarnefndar.
Kosnir 2 skoðunarmenn. Þingið samþykkti tillögu uppstillingarnefndar.
9. Önnur mál.
Þingforseti gaf framkvæmdastjóra ÍBA orðið.
Siðareglur og hegðunarviðmið: Framkvæmdastjóri fór yfir siðareglur og hegðunarviðmið ÍBA. Framkvæmdastjóri áréttaði viðbrögð og eftirfylgni ÍBA við broti á siðareglum og hegðunarviðmiðum.
Að lokinni kynningu bauð framkvæmdastjóri uppá umræður.
KÁF – Kynferðisleg áreitni og fræðsla: Framkvæmdastjóri kynnti KÁF, sem er fræðsla fyrir íþróttafélög innan ÍBA. Framkvæmdastjóri óskaði eftir að íþróttahreyfingin fjölmenni á fræðsluna, áætlað nk. haust.
Þingforseti gaf orðið laust.
Viðar Sigurjónsson bað um orðið og þakkaði fyrir góða skýrslu og reikninga. Þá vildi hann minna á að ÍBA og aðildarfélög þess hafa staðið sig gríðarlega vel að undanförnu. Sveigjanleiki og þolinmæði íþróttahreyfingarinnar hafi verið til fyrirmyndar. Þá vill hann hrósa ÍBA og aðildarfélögum fyrir vinnu við Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Þá þakkaði Viðar gott þing.
Reimar Helgason spurði hvort ÍBA hefði skoðað það að funda oftar en einu sinni í mánuði. Geir Kristinn sagði það hafa verið skoðað en niðurstaðan væri að fjölga ekki fundum að svo stöddu heldur gefa formanni og framkvæmdastjóra umboð til að vinna áríðandi mál áfram sem krefjast úrlausnar fyrir fundi frístundaráðs.
Hermann Sigtryggsson tók til máls og þakkaði íþróttahreyfingunni fyrir góðar kveðjur á 90 ára afmæli sínu. Óskaði hann hreyfingunni alls góðs í allri framtíð.
10. Þingslit.
Þingforseti lagði til að þingritara yrði falið að ganga frá fundargerð.
Geir Kristinn þingheimi traustið og þakkar þingforseta fyrir fundarstjórn og kveðst hlakka til að vinna með stjórninni og þakkar þingfulltrúum fundarsetuna.
Þingi slitið klukkan 19:30
Þingritari,
Ingvar Már Gíslason