Íþróttavika Evrópu er haldin vikuna 23. – 30. september ár hvert í yfir 30 Evrópulöndum. Markmið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Íþróttavikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi.
Evrópubúar sameinast í vikunni undir slagorðinu #BeActive.
Íþróttabandalag Akureyrar í samstarfi við aðildarfélög ÍBA bjóða upp á fjölbreytta dagskrá þessa viku og ættu vonandi flestir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og hreyfa sig með fjölskyldu og vinum.
Dagskráin hefst mánudaginn 23. september með tveimur flottum viðburðum, annar er með UFA Eyrarskokki og hefst við Mjólkursamsöluna (MS) klukkan 17:15 og næsti er í Sundlaug Akureyrar milli 19 og 20 þar sem Sundfélagið Óðinn býður upp á opna tíma þar sem farið verður yfir helstu tækniatriði skriðsunds, unnið með líðan í vatni og léttar sundæfingar teknar. Dagskrána í heild sinni má finna hér.
Dagskráin endar á opnum fyrirlestri í Háskólanum á Akureyri mánudaginn 30. september þar sem við fáum Birnu Varðardóttur í heimsókn til okkar þar sem hún fer yfir næringu og þarfir ungs íþróttafólks . Fyrirlestrinum er skipt í tvennt eins og kemur fram í hlekknum þar sem fyrri fyrirlesturinn er fyrir iðkendur 13 ára og eldri og sá seinni fyrir foreldra. Fyrirlesturinn er í boði ÍBA, Akureyrarbæjar, ÍSÍ og HA.
Frítt er á alla viðburði frá mánudegi til mánudags.
Hvetjum alla til að taka þátt, hafa gaman og finna sína hreyfingu til framtíðar.