Íþróttafélagið Akur hlaut viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á aðalfundi félagsins þann 22. maí. Viðar Sigurjónsson frá Stjórnsýslusviði ÍSÍ afhenti formanni félagsins Jóni Heiðari Jónssyni viðurkenninguna. Íþróttafélagið Akur er eitt af 21 aðildarfélagi innan vébanda Íþróttabandalags Akureyrar og er þar með orðið eitt þeirra fjölmörgu félaga innan ÍBA sem hafa hlotið viðurkenninguna Fyrirmyndarfélag ÍSÍ.
„Það að hafa farið í þessa vegferð hefur verið mjög gagnlegt og stuðlar tvímælalaust að betra og faglegra starfi innan félagsins. Við stjórnarfólk og þjálfarar erum afar ánægð og fögnum því að hafa náð þessum áfanga að verða Fyrirmyndarfélag ÍSÍ“ sagði Jón Heiðar Jónsson formaður af þessu tilefni.
ÍBA óskar Akri innilega til hamingju með viðurkenninguna.