Sverre Jakobsson hefur óskað eftir því við stjórn ÍBA að taka ekki við starfi framkvæmdastjóra bandalagsins líkt og áður hafði verið tilkynnt. Ástæðan er annað starf sem Sverre átti erfitt með að hafna. Taldi stjórn ÍBA sjálfsagt og eðlilegt að verða við þeirri ósk Sverres.
Þegar starf framkvæmdastjóra ÍBA var auglýst í desember sl. bárust margar áhugaverðar umsóknir frá öflugum einstaklingum. Við fyrrnefnd tíðindi hófst stjórn ÍBA handa við að fara aftur í gegnum þær umsóknir í samráði við Capacent sem hafði veg og vanda af ráðningunni. Niðurstaðan úr þeirri vinnu var að ráða Helga Rúnar Bragason í starf framkvæmdastjóra bandalagsins og mun hann hefja störf í byrjun mars. Tekur hann við starfinu af Þóru Leifsdóttur sem mun þó áfram starfa á skrifstofu bandalagsins.
Helgi Rúnar er 41 árs gamall, með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja af náttúrufræði- og íþróttabraut. Hann hefur fjölbreytta reynslu, jafnt úr atvinnulífinu sem úr íþróttum.
Helgi var rekstrarstjóri Ekrunnar á Akureyri í 12 ár og þar áður fjármálastjóri Gólflagna. Hann hefur verið mjög virkur í ýmis konar íþrótta- og félagsstörfum í gegnum árin. Helgi er í dag þjálfari meistaraflokks kvenna í körfuknattleik hjá Þór á Akureyri og hefur í gegnum árin verið virkur í unglingastarfi, jafnt hjá Þór og UMFG. Hann hefur verið virkur félagi í Round Table og m.a. setið í landstjórn samtakanna, verið landsforseti og alþjóðatengslafulltrúi.
Helgi Rúnar er kvæntur Hildi Ýr Kristinsdóttur og eiga þau eina dóttir.