Ánægjuvogin er unnin af Rannsóknum og greiningu (R&g) fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ). Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk. Í Ánægjuvoginni felst að spurningar tengdar íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar á þessu ári og var svarhlutfallið 85%.
ÍSÍ og UMFÍ hafa fengið að setja inn í spurningalistann nokkrar spurningar til að kanna ánægju þeirra sem stunda íþróttir með íþróttafélagi. Hversu ánægð/ur ertu með íþróttafélagið, þjálfarann og aðstöðuna og helstu áhersluatriði þjálfarans í starfinu. Einnig eru skoðuð tengsl íþróttaiðkunar við aðra þætti eins og vímuefnaneyslu, námsárangur, andlega og líkamlega heilsu og sjálfsmynd.
Niðurstöður Ánægjuvogarinnar sýna að börn frá heimilum þar sem eingöngu er töluð íslenska eru helmingi líklegri til að æfa íþróttir 4x í viku eða oftar. Ljóst er að íþróttafélögin þurfa að ná til barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku.
Að öðru leyti eru niðurstöður mjög jákvæðar fyrir íþróttahreyfinguna og staðfesta það mikla forvarnargildi sem felst í iðkun íþrótta með íþróttafélagi. Það er ekki hreyfingin sem slík sem hefur forvarnargildi heldur sú menning, umgjörð og þær hefðir sem skapast hafa innan íþróttafélaganna. Fullyrða má að eftir því sem unglingur æfir íþróttir oftar í viku með íþróttafélagi, því ólíklegri er hann til að ástunda neikvæða hegðun. Þegar skoðuð eru tengsl íþróttaiðkunar og vímuefnaneyslu þá kemur fram að eftir því sem krakkar stunda íþróttir með íþróttafélagi oftar í viku því ólíklegri eru þau til að neyta vímuefna. Hlutverk þjálfara og ábyrgð hans í uppeldi iðkenda er ótvírætt og skiptir því sköpum hvaða áherslur hann leggur í starfi sínu á hluti eins og sigur í keppni, drengilega framkomu og heilbrigt líferni.