80 ára afmælishátíð ÍBA í Boganum

Glæsilegri íþróttahátíð var slegið upp í Boganum á Akureyri síðastliðinn laugardag af tilefni 80 ára afmælis Íþróttabandalags Akureyrar (ÍBA) 20. desember næstkomandi. Íþróttahátíðin tókst með eindæmum vel og komust færri að en vildu á tímabili því bílastæðamál buðu ekki upp á annað. Innan vébanda ÍBA eru 20 aðildarfélög en 17 af þeim mættu í Bogann, kynntu stafsemi sína og fengu gestir og gangandi að spreyta sig í og prófa hinar ýmsu íþróttagreinar. Einnig voru nokkur félög með glæsilegar sýningar á hátíðinni og sýndu listir sínar. Innan aðildarfélaga ÍBA eru stundaðar hvorki meira né minna en tæplega 50 íþróttagreinar sem hlýtur að vera heimsmet miðað við höfðatölu.

Hátíðin byrjaði með stuttu ávarpi Jónu Jónsdóttur formanns ÍBA, síðan steig bæjarstjóri Akureyrar, Ásthildur Sturludóttir, á stokk og sagði nokkur orð og loks bárust kveðjur frá UMFÍ og ÍSÍ en það var Ragnheiður Högnadóttir formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ sem ávarpaði gesti og loks var það Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ.

Nokkrir góðir gestir kíktu í heimsókn í Bogann en Íþróttaálfurinn sjálfur mætti og sýndi listir sínar og gaf sig á tal við börnin og aðra gesti hátíðarinnar sem fengu myndir og knús, Klói mætti og gaf öllum Kókómjólk og Andrés Önd labbaði um svæðið og heilsaði uppá gesti.

Íþróttafélagið Akur, sem er eitt aðildarfélaga ÍBA, fagnaði einmitt 50 ára stórafmæli sínu í gær og kynnti að sjálfsögðu sínar greinar í Boganum og fengu gestir meðal annars að spreyta sig í bogfimi og borðtennis. Síðan var haldin heljarinnar veisla í Lions salnum Skipagötu 14 sem var opið öllum.

Við hjá ÍBA viljum senda sérstakar þakkir til allra aðildarfélaganna okkar sem tóku þátt, stóðu vaktina og gerðu hátíðina svona glæsilega, þetta var hátíðin þeirra og hefði aldrei orðið að veruleika nema fyrir þau og alla þeirra vinnu og allra þeirra fjölmörgu sjálfboðaliða sem stóðu vaktina. 

Einnig viljum við þakka Viðburðarstofu Norðurlands sem undirbjó þetta frá A til Ö. Að lokum sendum við sérstakar þakkir til styrktaraðila hátíðarinnar en það eru Kjarnafæði/Norðlenska, Nettó, MS, Myllan og Ölgerðin.

Myndir frá afmælishátíðinni koma von bráðar hér á heimasíðuna og á samfélagsmiðla.